|
|
|
|
|
|
|
|
|
25.2.2011 |
|
Safnið er eina sinnar tegundar á austurlandi og starfar á fjórðungsvísu. Safnið hefur ekki eingöngu mikla menningarlega þýðingu fyrir byggðarlagið heldur allt austurland.
Safnið er í gömlu verslunarhúsi, sem Verslunarfélagið Örum & Wulff byggði um 1816. Carl D. Tulinius, sem var starfsmaður hjá félaginu, keypti verslunina um 1860 og rak hana til dauðadags árið 1905. Þá tóku við afkomendur hans og kölluðu fyrirtækið C. D. Tuliníus efterfølgere og starfaði það til ársins 1912. Á þeim tíma var byggt nýtt verslunarhús og við það hlaut eldra húsið nafnið "Gamla búð" og hefur það haldist alla tíð síðan. Gamla búð hefur þjónað margvíslegum hlutverkum í bæjarfélaginu eftir að verslun var flutt, fyrst sem pakkhús og síðar fiskgeymsla, veiðarfærageymsla o.fl. Endurbygging hússins hófst árið 1968 og þar var þá flutt ofar í lóðina til að rýma fyrir vegaframkvæmdum og árið 1983 var verkinu lokið. Þá var búið að ákveða stofnun sjóminjasafns á Eskifirði og var því komið fyrir í húsinu. Safnið var opnað almenningi 4. júní 1983. Utan dyra eru gamlir munir, sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Lifrarbræðslu- og matarsuðupottar frá hvalveiðistöðvum. Skipsskrúfa, sem var laus um borð í skipinu Reidar, sem strandaði á Borgarfirði eystri 1909. Það var í eigu Þórarins Tulinius, sem var sonur Carls D. T. kaupmanns. Skútuakkeri, sem fannst á skipalægi undan Breiðuvíkurkaupstaðnum gamla, en þar var eini verslunarstaðurinn við Reyðarfjörð á árunum skömmu eftir 1600 og fram til 1788. Siglutré úr bátnum Gullfaxa frá Neskaupsstað, en hann var síðast á Eskifirði upp úr 1960.
|
|
|
|
|
|
|
|
|