|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Safnið er í gömlu verslunarhúsi, sem Verslunarfélagið Örum & Wulff byggði um 1816. Carl D. Tulinius, sem var starfsmaður hjá félaginu, keypti verslunina um 1860 og rak hana til dauðadags árið 1905. Þá tóku við afkomendur hans og kölluðu fyrirtækið C. D. Tuliníus efterfølgere og starfaði það til ársins 1912. Á þeim tíma var byggt nýtt verslunarhús og við það hlaut eldra húsið nafnið "Gamla búð" og hefur það haldist alla tíð síðan. Gamla búð hefur þjónað margvíslegum hlutverkum í bæjarfélaginu eftir að verslun var flutt, fyrst sem pakkhús og síðar fiskgeymsla, veiðarfærageymsla o.fl. Endurbygging hússins hófst árið 1968 og þar var þá flutt ofar í lóðina til að rýma fyrir vegaframkvæmdum og árið 1983 var verkinu lokið. Þá var búið að ákveða stofnun sjóminjasafns á Eskifirði og var því komið fyrir í húsinu. Safnið var opnað almenningi 4. júní 1983. Utan dyra eru gamlir munir, sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Lifrarbræðslu- og matarsuðupottar frá hvalveiðistöðvum. Skipsskrúfa, sem var laus um borð í skipinu Reidar, sem strandaði á Borgarfirði eystri 1909. Það var í eigu Þórarins Tulinius, sem var sonur Carls D. T. kaupmanns. Skútuakkeri, sem fannst á skipalægi undan Breiðuvíkurkaupstaðnum gamla, en þar var eini verslunarstaðurinn við Reyðarfjörð á árunum skömmu eftir 1600 og fram til 1788. Siglutré úr bátnum Gullfaxa frá Neskaupsstað, en hann var síðast á Eskifirði upp úr 1960.
A.
- Gengið er inn i húsið, þar sem krambúðin var, en hún var endurgerð á sama hátt og talið var, að hún hafi verið upprunalega. Þar var komið fyrir hlutum, sem eru horfnir úr verslunum á okkar dögum og vitað er, að sumir þeirra eru upphaflegir.
B.
- Inni af krambúðinni á neðri hæðinni var pakkhús og í þeim hluta eru núna sjóminjar.
- Hlutir frá upphafi síldveiða hérlendis, líkön af svokallaðri landnót og stauranót eða botnneti, líkan af síldarsjóhúsi, sem Norðmenn byggðu upp úr 1880 víða í sjávarplássum á Austfjörðum. Einnig eru sýnd ýmiss konar tól og tæki, sem voru notuð við síldveiðar og söltun.
- Líkan af hvalstöð, sem var í Hellisfirði árin 1904-13. Þá voru fimm hvalstöðvar á Austfjörðum. einnig eru sýndar ljósmyndir og ýmsir hlutir frá þessum vettvangi. Á gólfi til hliðar við stigann er lítil hvalabyssa, sem var notuð við hrefnuveiðar. Byssan kom frá Vestfjörðum og var um tíma í eigu Hrefnu-Gvendar.
- Veiðarfæri til veiða á þorski og öðrum tegundum. Þetta eru svokölluð handfæri og sýnd er þróun þeirra til nútímans. Hér eru einnig tæki til að snúa saman tauma á fiskilínur og til að gera svera kaðla úr notuðum og slitnum strengjum. Þá mátti nota í stjórafæri, landfestar o.þ.h.
- Líkön af færeyskum árabát og Ásubergsskipinu, sem var grafið úr jörð í Noregi árið 1904 og mun vera frá víkingatímanum. Á veggjum eru myndir frá síldveiðum o.fl. varðandi sjósókn, einnig línurit yfir síldveiðar við Ísland á árunum 1870 - 1980.
- Myndir og aðrar heimildir báta og skipa á Eskifirði. Myndir af strandferðaskipum Skipaútgerðar ríkisins, skipum Landhelgisgæslunnar og flutningaskipum Sambandsins og Eimskipafélagsins.
- Myndir og upplýsingar um nokkra skipstjórnarmenn, sem hafa átt heima á Eskifirði. Ýmsir hlutir varðandi netagerð o.fl. Fiskilína frá smábátaútgerð ásamt beitningaborði og línubjóði.
- Hlutir, sem voru notaðir við stjórnun og siglingar skipa og báta, einnig nokkur nafnskilti af bátum frá Eskifirði o.fl.
- Þrjú líkön af skipum á Eskifirði frá 1905, þegar fyrsti vélbáturinn kom í Reyðafjörð ot til ársins 1957. Einnig er sýnd þróun þorsksneta.
- Veiðarfæri, baujur o.fl. frá vélbátaútgerð og hlutir frá saltfiskverkun fyrri ára ásamt ljósmyndum.
- Hákarlaveiðar. Gagnvaður með 4 krókum ásamt kraka (stjóra) og bauju, sem var gerð úr kálfsskinnbelg. Líka hnífar o.fl. verkfæri, sem voru notuð við hákarlaskurð. Þarna eru líka hákarlafæri, sem voru notuð líkt og handfæri fyrir þorsk.
- Á veggnum eru beykisáhöld, sem voru notuð við tunnusmíði og viðgerðir. Þetta var áður sérstök iðngrein og var lærður maður í slíku kallaður beykir. Á borðinu fyrir neðan og hillu þar undir eru verkfæri til skipasmíða og viðgerða.
- Árabátur, tveggja manna far, frá 1916 og í honum ýmiss konar veiðitól, handfæri, skutull, kolastingur og haglabyssa. Margt annað tengt sjósókn er að sjá á neðri hæðinni.
C.Efri hæðin.
- Tæki til brjóstsykursgerðar, sem voru keypt til Tuliniusarverzlunar árið 1905. Þau voru síðar í eigu Jóns Þorsteinssonar bakara.
- Skósmíðaáhöld frá ýmsum mönnum, sem unnu við skósmíðar á Eskifirði meðan sú iðngrein var stunduð á staðnum.
- Járnsmíðaáhöld eins og þau tíðkuðust hjá einstaklingum, sem fengust við járnsmíðar. Flestir munir eru frá Kristjáni Jónssyni, sem var útgerðarmaður og átti litla smiðju, þar sem hann vann fyrir útgerð sína og samborgara. einnig eru þar nokkrir hlutir frá Vélaverkstæði Eskifjarðar, sem Friðbjörn Hólm stofnaði árið 1921 og rak til 1928.
- Búnaður til framleiðslu á steinsteypurörum og steypusteinum til húsbygginga. Voru í eigu Lúthers Guðnasonar, sem rak þessa starfsemi frá 1930 til 1956.
- Trésmíðaáhöld og hefilbekkur úr eigu Guðna Jónssonar trésmíðameistara, sem starfaði við sína iðn á Eskifirði frá 1908 til 1970. Einnig verkfæri frá Jóni Halldórssyni Snædal og rennibekkur o.fl. frá Svínaskála og voru í eigu Jónasar Símonarsonar bónda og útgerðarmanns þar.
- Hlutir frá heilsugæslu Eskifjarðar. Handlækningatæki voru í eigu Einars Ástráðssonar héraðslæknis 1931 - 1956.
- Tannlæknatæki frá Baldri Óla Jónssyni, sem hóf tannlækningar á Eskifirði árið 1939 og starfaði fram yfir 1960.
- Hlutir frá ljósmyndasmiðum, sem störfuðu á Eskifirði.
- Tóvinnutæki, spunavélar tvær, rokkur, prjónavélar og gamall vefstóll.
- Ýmiss konar heimilistæki frá fyrri tíma.
Sjóminjasafn Austurland Strandgötu 39b 735 Eskifirði Ísland Sími: 476 1605, 470 9063, 470 9000. Netfang: sofn@fjardabyggd.is Opið daglega milli 13:00 - 17:00 frá 1. júní til 31.ágúst. Utan þess tíma, eftir samkomulagi við safnvörð. |
|
|
|
|
|
|
|
|